Chateau de la Chaize í Beaujolais

Það eru spennandi hlutir að gerast í Beaujolais þessa dagana og framtíðin er björt. Ný kynslóð víngerðarmanna er að taka við keflinu af foreldrum sínum sem gengu í gegnum rússíbanareiðina sem Beaujolais Nouveau tímabilið bauð uppá og er ungdómurinn staðráðinn í að gera ekki sömu mistök og voru gerð þar. Fyrst og fremst er allur fókusinn á gæði en ekki magn og eru fjölmargir framleiðendur að fjársfesta í innviðum til að tryggja gæði framtíðarinnar en það er líka verið að færa sig úr gömlum víngerðaraðferðum eins og t.d. carbonic maceration sem gefur af sér einföld og ávaxtarík vín á stuttum tíma, yfir í hefðbundnari aðferðir í þeirri von að framleiða alvörugefnari og margslungnari vín. Það er svo von á fyrstu premier cru flokkuninni í Beaujolais á næstu árum, sem er lýsandi fyrir eldmóðinn og metnaðinn sem er í framleiðendum. Einn af þessum framleiðendum er hinn rótgrónni og sögufrægi Chateau de la Chaize sem er staðsettur í Brouilly.

Saga víngerðarinnar er löng og afar áhugaverð. Árið 1670 keypti aðalsmaðurinn og lautinantinn Jean-Francois de la Chaize d’Aix Chateau de la Douze, sæmilega stóra landareign með gömlu virki sem gnæfði yfir landið. Jean-francois gegndi nokkurs konar borgarstjórastöðu í Lyon og var hann afar mikilvægur maður en þó ekki jafn mikilvægur maður og bróðir hans, Francois de la Chaize, þekktari sem Père Lechaise – konunglegur skriftaprestur Lúðvíks XIV. Ári síðar gjöreyðilagðist virkið í vonskuveðri og ákvað Jean-Francois að í stað virkis skyldi reisa glæsilegt ættaróðal á landareigninni sem skyldi bera fjölskyldanafn hans og úr varð Chateau de la Chaize. Þökk sé tengsla hans við hirð Lúðviks XIV fékk hann byggingarverkfræðinga og arkitekta hirðarinnar, sömu menn og höfðu nokkrum árum áður séð um hönnun og byggingu konunglegu hallarinnar í Versölum, til að reisa Chateau de la Chaize og lauk því verkefni árið 1676. Konunglegur garðyrkjumaður Lúðvíks XIV var svo fenginn til að hanna stórglæsilega garða kastalans sem standa enn þann dag í dag í allri sinni dýrð. Eins og lenskan var á þessum tíma var engu til sparað og er óhætt að segja að Chateau de la Chaize sé prýði Beaujolais, þó víðar væri leitað enda mat margra að Chateau-ið sé eitt það glæsilegasta frá þessu tímabili. Eignin var í svo í eigu sömu fjölskyldunnar í næstum 350 ár þar til árið 2017 þegar Christophe Gruy, stofnandi og eigandi Groupe Maïa -byggingafyrirtæki sem á og rekur fjöldann allan af hótelum í Frakklandi, keypti eignina og hóf hann strax vegferð í átt að sjálfbærni og lífrænni vínræktun.

Víngerðin á í dag um 150 hektara af vínvið í fjórum af hinum tíu Cru Beaujolais, (Fleurie, Brouilly, Morgon og Côte de Brouilly) sem gerir hana að stærstu víngerð Beaujolais. Þrátt fyrir þetta eru aðeins 60 hektrar af vínvið sem gefa af sér ávöxt í dag þar sem að stór hluti af sjálfbærnisvegferðinni fól í sér að rífa upp stóran hluta af vínekrum víngerðarinnar og gróðursetja upp á nýtt. Markmiðið var að fara úr hinni hefðbundnu gobelet ræktun á vínviðnum í double cordon royat sem gerir þeim auðveldara að rækta vínviðinn á lífrænan hátt. Frá og með 2022 verður hluti framleiðslunnar lífrænt vottaður og restin mun ná þeim áfanga frá og með 2023 en það er ekki fyrr en árið 2030 sem allir þessir 150 hektarar af vínvið verða farnir að gefa af sér gæðavín.

En það er eitt að eiga glæsilegan Chateau sem ríka sögu sem nær 350 ár aftur í tímann en fyrir mér skiptir það litlu máli ef vínin eru ekki í stíl. Mögulega geir maður aðeins meiri kröfur til víngerðar sem hefur allan þennan glæsileika því að ekki á maður nú að dæma bókina eftir kápunni. Vínin eru öll úr Gamay eins og við er að búast og þrátt fyrir breyttar áherslur í víngerðinni og vínræktinni þá eru vínin trú sínum uppruna og það sem meira er – þau eru frábær. Ávöxturinn í þeim öllum er to die for og ásamt ferskleikanum sem kemur frá Gamay þá eru þetta vín sem eiga heima á matarboðinu með grillinu í sumar, charcutterie bökkum eða jafnvel bragðmeiri fiskréttum. Ég ætla að vera alveg hreinskilinn þegar ég skrifa að þetta eru vínin sem opnuðu augun mín aftur gagnvart vínunum frá Beaujolais.

Nýlega hóf Uva Vino innflutning á nokkrum af þeirra frábæru vínum og má kaupa Morgon, Brouilly og Pouilly-Fuissé á heimasíðu þeirra á virkilega fínu verði.

Nýuppgerður vínkjallarinn hjá Chateau de la Chaize er stórglæsilegur (Mynd http://www.chateaudelachaize.fr)

You might be interested in …

Leave a Reply